Systir Ronaldo: Þið eruð sjúk

Cristiano Ronaldo náði sér engan vegin á strik gegn Spánverjum …
Cristiano Ronaldo náði sér engan vegin á strik gegn Spánverjum í gær. AFP/Patricia De Melo

Katia Aveiro, systir portúgalska knattspyrnumannsins Cristiano Ronaldo, var allt annað en sátt við stuðningsmenn portúgalska landsliðsins eftir 0:1-ósigur liðsins gegn Spáni í 2. riðli A-deildar Þjóðadeildar UEFA í Braga í Portúgal í gær.

Leiknum lauk með 1:0-sigri Spánverja sem tryggðu sér um leið efsta sæti riðilsins og sæti í undanúrslitum keppninnar í júní næsta sumar.

Ronaldo, sem er 37 ára gamall, átti ekki sinn besta dag með portúgalska liðinu og var harðlega gagnrýndur af stuðningsmönnum liðsins á samfélagsmiðlum.

„Þessi hegðun stuðningsmanna liðsins kemur mér ekkert á óvart,“ skrifaði Aveiro á samfélagsmiðilinn Instagram.

„Portúgalar eru vanir að hrækja á sömu diska og þeir eru vanir að borða af en það er mikilvægt að standa við bakið á þeim sem hafa gefið allt fyrir landið sitt.

Þið eruð sjúk, ömurleg, sálarlaus og vanþakklát þjóð. Hann er að ganga í gegnum erfiða tíma núna og þarf einhvern til þess að kippa sér upp af jörðinni,“ bætti Aveiro við.

mbl.is