Mögulegir mótherjar Íslands eru 44

Íslenska landsliðið er í þriðja styrkleikaflokki.
Íslenska landsliðið er í þriðja styrkleikaflokki. Ljósmynd/Alex Nicodim

Eftir að riðlakeppni Þjóðadeildar karla í fótbolta lauk fyrr í þessari viku komst endanleg mynd á hvernig styrkleikaflokkarnir líta út fyrir dráttinn í undankeppni EM karla 2024.

Eins og fram kom fyrir leik Íslands og Albaníu á þriðjudag verður íslenska liðið í þriðja styrkleikaflokki og fær því með sér tvær þjóðir sem eiga að vera sterkari og tvær til þrjár sem gætu verið veikari. Frammistaða í Þjóðadeildinni ræður styrkleikaflokkuninni.

Dregið verður í riðla í Frankfurt í Þýskalandi annan sunnudag, 9. október, en lokakeppni EM 2024 fer fram í Þýskalandi.

Að þessu sinni verða 53 af 55 þjóðum UEFA með í undankeppninni. Þjóðverjar fara beint í lokakeppnina sem gestgjafar og Rússar eru í banni vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Þar með eru líkurnar á að lenda í fimm liða riðli meiri en að vera í sex liða riðli. Þjóðunum verður skipt í tíu riðla og nú verða sjö þeirra með fimm liðum en aðeins þrír með sex liðum. Að vanda er dregin ein þjóð úr hverjum styrkleikaflokki í hvern riðil.

Ísland getur mætt 44 af þessum 53 þjóðum en ekki þeim níu sem verða með íslenska liðinu í þriðja styrkleikaflokki.

Styrkleikaflokkarnir eru þannig skipaðir en fyrir fram er ákveðið að liðin fjögur sem eru komin í undanúrslit Þjóðadeildar og eru öll í fyrsta flokki verði í fimm liða riðli. Það eru Holland, Króatía, Spánn og Ítalía.

1. styrkleikaflokkur:
Holland
Króatía
Spánn
Ítalía
Danmörk
Portúgal
Belgía
Ungverjaland
Sviss
Pólland

2. styrkleikaflokkur:
Frakkland
Austurríki
Tékkland
England
Wales
Ísrael
Bosnía
Serbía
Skotland
Finnland

3. styrkleikaflokkur:
Úkraína
Ísland
Noregur
Slóvenía
Írland
Albanía
Svartfjallaland
Rúmenía
Svíþjóð
Armenía

4. styrkleikaflokkur:
Georgía
Grikkland
Tyrkland
Kasakstan
Lúxemborg
Aserbaídsjan
Kósóvó
Búlgaría
Færeyjar
Norður-Makedónía

5. styrkleikaflokkur:
Slóvakía
Norður-Írland
Kýpur
Hvíta-Rússland
Litháen
Gíbraltar
Eistland
Lettland
Moldóva
Malta

6. styrkleikaflokkur:
Andorra
San Marínó
Liechtenstein

mbl.is