Vilja ekki sjást á móti sem hefur kostað þúsundir manna lífið

Ný keppnistreyja danska landsliðsins fyrir HM 2022 í Katar lætur …
Ný keppnistreyja danska landsliðsins fyrir HM 2022 í Katar lætur lítið sjást í merki sitt og danska knattspyrnusambandsins. Ljósmynd/Hummel

Danski íþróttavöruframleiðandinn Hummel opinberaði í gær nýjar keppnistreyjur danska karlalandsliðsins í knattspyrnu fyrir HM 2022 í Katar og sendi um leið frá sér yfirlýsingu þar sem gestgjafar mótsins eru gagnrýndir.

Á treyjunum sést lítið sem ekkert í merki Hummel og sömuleiðis ekki í merki danska knattspyrnusambandsins. Er það allt með ráðum gert og til þess að senda skilaboð.

„Þessi treyja ber með sér boðskap. Við viljum ekki vera sýnileg á meðan mót, sem hefur kostað þúsundir manna líf sín, stendur yfir.

Við styðjum danska landsliðið alla leið en það er ekki þar með sagt að við styðjum Katar sem gestgjafa,“ sagði í yfirlýsingunni, sem birtist á twitteraðgangi fyrirtækisins.

Katar hefur legið undir mikilli gagnrýni, þar á meðal frá mannréttindasamtökunum Amnesty International, fyrir illa meðferð sína á verkamönnum sem hafa undanfarin ár staðið í því að byggja leikvanga fyrir heimsmeistaramótið, sem hefst í nóvember næstkomandi.

Samkvæmt opinberun The Guardian frá því í febrúar á síðasta ári höfðu 6.500 farandverkamenn frá Indlandi, Pakistan, Nepal, Bangladesh og Srí Lanka látist frá því að Katar var úthlutað HM 2022 árið 2011.

mbl.is