Stórkostleg innkoma Sveindísar

Sveindís Jane Jónsdóttir fór á kostum í kvöld.
Sveindís Jane Jónsdóttir fór á kostum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveindís Jane Jónsdóttir fór á kostum fyrir Wolfsburg þegar liðið tók á móti Bayer Leverkusen í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Leiknum lauk með 6:1-stórsigri Wolfsburg en Sveindís Jane kom inn á sem varamaður hjá þýska liðinu á 66. mínútu í stöðunni 3:1.

Sex mínútum síðar lagði hún upp mark fyrir Felicitas Rauch og tveimur mínútum síðar, á 74. mínútu, skoraði hún fimmta mark Wolfsburg.

Hún var svo aftur á ferðinni mínútu síðar þegar hún skoraði sjötta mark Wolfsburg og sitt annað mark en Wolfsburg, sem er ríkjandi Þýskalands- og bikarmeistari, er með 9 stig eða fullt hús stiga í efsta sæti deildarinnar.

mbl.is