Alfreð að verða betri og betri

Alfreð á fleygiferð með Lyngby.
Alfreð á fleygiferð með Lyngby. Ljósmynd/Lyngby

Alfreð Finnbogason, leikmaður Lyngby í Danmörku, lék sína fyrstu landsleiki í um tvö ár þegar Ísland vann 1:0-sigur á Venesúela í vináttuleik í Austurríki og gerði 1:1-jafntefli við Albaníu á útivelli í Þjóðadeildinni í fótbolta.

„Það var mjög gott að snúa aftur í landsliðið, eftir tveggja ára fjarveru. Það hafa verið kynslóðaskipti og margir eldri leikmenn horfið á brott. Nú vorum við með fjóra reynslumikla leikmenn í bland við yngri leikmenn. Það var mjög gaman að vera hluti af nýja liðinu sem við erum að búa til.

Leikurinn við Venesúela var örugglega ekki sá skemmtilegasti, en það var glæsilegt að ná í sigur með landsliðinu. Okkur leið eins og við höfum unnið Albaníu, því við lögðum mikið á okkur til að jafna á lokasekúndunni eftir að hafa misst mann af velli snemma,“ sagði Alfreð í samtali á heimasíðu Lyngby.

Eftir að hafa lengi glímt við erfið meiðsli, er Alfreð að komast í sitt besta stand á ný.

„Ég byrjaði báða landsleikina og hef því byrjað fjóra leiki í röð. Líkaminn á mér er að komast í betra stand. Ég er að verða betri og betri og vonandi verð ég orðinn 100 prósent fyrir næstu leiki. Ég vil sýna mitt rétta andlit fyrir jól,“ sagði Alfreð.

mbl.is