Nökkvi á skotskónum og Beerschot á toppinn

Nökkvi Þeyr Þórisson og Hallgrímur Mar Steingrímsson fagna marki með …
Nökkvi Þeyr Þórisson og Hallgrímur Mar Steingrímsson fagna marki með KA fyrr í sumar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði annað mark Beerschot er liðið fór á toppinn í belgísku B-deildinni með 2:0 sigri gegn KMSK Deinze í kvöld.

Thibo Baeten sá til þess að heimamenn voru með 1:0 forystu þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks en mark hans kom úr vítaspyrnu á 41. mínútu.

Þá var komið að Dalvíkingnum Nökkva að bæta við öðru marki sem hann og gerði á 50. mínútu. Nökkvi fór svo af velli þegar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Fleiri urðu mörkin ekki en Beerschot situr nú á toppnum í deildinni með 13 stig eftir sjö leiki. Deinze er hins vegar á botninum með fimm stig.

Mark Nökkva í kvöld var hans annað mark fyrir félagið síðan hann skipti yfir til Belgíu frá KA í síðasta mánuði. Nökkvi var valinn maður leiksins í síðasta leik en þá setti hann þriðja markið í 4:0 sigri gegn neðri­deildaliðinu Knokke í belgísku bik­ar­keppn­inni.

mbl.is