Arnór og Arnór lögðu upp í sigri Íslendingaliðsins

Arnór Sigurðsson hefur verið áberandi í leikjum Norrköping að undanförnu.
Arnór Sigurðsson hefur verið áberandi í leikjum Norrköping að undanförnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslendingaliðið Norrköping sótti Sundsvall heim í sænsku úrvalsdeild karla í fótbolta í dag.

Ari Freyr Skúlason, Arnór Sigurðsson og Arnór Ingvi Traustason voru allir í byrjunarliði gestanna, en Andri Lucas Guðjohnsen fékk sér sæti á bekknum.

Arnór Ingvi lagði upp fyrsta mark leiksins er gestirnir í Norrköping tóku forystuna á 11. mínútu og var þar að verki Christoffer Nyman.

Jacob Ortmark bætti við öðru marki fimm mínútum síðar og Norrköping komið í 2:0 forystu eftir 16. mínútna leik. Arnór Sigurðsson lagði þá upp þriðja markið fyrir Nyman á 87. mínútu áður en Pontus Engblom skoraði sárabótamark fyrri Sundsvall stuttu síðar, lokatölur 3:1.

Ari Freyr lék allan leikinn en nafnarnir fóru af velli undir lokin. Andri Lucas fékk þá aðeins að spreyta sig en hann kom inn á lokamínútunni.

Norrköping situr í 10. sæti deildarinnar með 28 stig eftir 24 leiki. Sundsvall situr á botninum með 11 stig.

Íslendingar mættust einnig í Grikklandi þar sem Atromitos með þá Viðar Örn Kjartansson og Samúel Kára Friðjónsson innanborðs sóttu Ögmund Kristinsson og félaga í Olympiakos heim. Viðar Örn lék allan leikinn og Samúel Kári fór af velli á 81. mínútu í 2:0 sigri heimaliðsins. 

Ögmundur sat allan tímann á bekknum en liðsfélagar hans í Olympiakos verma 2. sætið í deildinni með 11 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Panathinaikos í upphafi leiktíðar. Atromitos er með átta stig eftir sex leiki en liðið hefur unnið tvo, gert tvo jafntefli og tapað tveimur.

mbl.is