Berglind skoraði en Guðrún og stöllur unnu slaginn

Berglind Rós Ágústsdóttir í leik með íslenska landsliðinu síðastliðið haust.
Berglind Rós Ágústsdóttir í leik með íslenska landsliðinu síðastliðið haust. mbl.is/Unnur Karen

Íslensku landsliðskonurnar Berglind Rós Ágústsdóttir og Guðrún Arnardóttir mættust í sænsku úrvalsdeild kvenna í fótbolta í dag er Örebro fékk Rosengård í heimsókn.

Leiknum lauk með gríðarlega mikilvægum 4:2 sigri Guðrúnar og félaga í toppliði Rosengård.

Berglindi tókst að minnka muninn fyrir Örebro í 3:2 í fyrri hálfleik en Olivia Schough bætti svo við öðru marki sínu og fjórða marki Rosengård í þeim síðari. Báðar landsliðskonurnar léku allan leikinn.

Örebro er í 9. sæti með 30 stig eftir 22 umferðir. Rosengård leiðir á toppnum með 54 stig, fimm stigum á undan Íslendingaliðinu Kristianstad þar sem Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari.

Kristianstad var einnig að spila í dag en mistókst að saxa á forskot toppliðsins er lærisveinar Elísabetar gerði 1:1 jafntefli gegn Eskiltunna á útivelli. Amanda Andradóttir lék allan leikinn en Emelía Óskarsdóttir kom inn á þegar um níu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Þá gerði Piteå 1:1 jafntefli við Hammarby á heimavelli í sömu deild. Hlín Eiríksdóttir var í byrjunarliði Piteå en fór af velli á 85. mínútu. Liðið er í 6. sæti með 37 stig, einu stigi á eftir Hammarby.

Svava Rós Guðmundsdóttir og liðsfélagar hennar í Brann eru í góðum málum í norsku úrvalsdeild kvenna en þær unnu 1:0 útisigur á Stabæk í dag. Svava var í byrjunarliðinu en fór af velli á 89. mínútu. Brann er á toppnum í umspilinu um meistaratitilinn með 13 stig.

mbl.is