Sævar Atli bjargaði jafntefli en Lyngby enn án sigurs

Sævar Atli Magnússon í leik með íslenska U21-árs landsliðinu.
Sævar Atli Magnússon í leik með íslenska U21-árs landsliðinu. Kristinn Magnússon

Íslendingalið og nýliðar Lyngby sóttu Bröndby heim í dönsku úrvalsdeild karla í fótbolta í dag.

Alfreð Finnbogason var í byrjunarliðinu hjá lærisveinum Freyrs Alexanderssonar og lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir Frederik Gytkjær er gestirnir í Lyngby tóku forystuna á 8. mínútu.

Bröndby menn sneru leiknum sér í vil með mörkum á 16. og 18. mínútu og leiddu því í leikhléi, en Kasper Jörgensen jafnaði metin í 2:2 á 60. mínútu.

Oscar Schwartau virtist ætla að tryggja Bröndby sigurinn með marki á 75. mínútu. Sævar Atli Magnússon kom þá inn af bekknum fyrir Alfreð á 82. mínútu og sex mínútum síðar jafnaði U21 landsliðsmaðurinn metin fyrir Lyngby og bjargaði einu stigi, lokatölur 3:3.

Lyngby er samt sem áður í neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig en liðið hefur enn ekki unnið leik þegar 11 umferðir hafa verið spilaðar. Bröndby er í 10. sæti með 12 stig.

Í þýsku úrvalsdeild kvenna lék Glódís Perla Viggósdóttir allan leikinn fyrir Bayern Munchen sem vann 4:0 sigur gegn Duisburg. Karólína Lea og Cecilía Rán voru hvorugar í hóp. Bayern hefur unnið tvo og gert eitt jafntefli í fyrstu þremur leikjum liðsins á tímabilinu.

Ingibjörg Sigurðardóttir lék allan leikinn fyrir Vålerenga sem vann 2:0 sigur á Selmu Sól Magnúsdóttur og stöllum í Rosenborg í norsku úrvalsdeild kvenna.

Elise Thorsnes gerði bæði mörk heimakvenna í leiknum sem eru í öðru sæti í umspili um meistaratitilinn með átta stig, fimm stigum á eftir Svövu og stöllum í Brann. Rosenborg er sömuleiðis með átta stig í þriðja sætinu.

mbl.is