Sara mætir gömlu félögunum – þrjú Íslendingalið saman í riðli

Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Juventus mæta gömlu …
Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Juventus mæta gömlu félögum hennar í Lyon auk stórliðs Arsenal. Ljósmynd/@JuventusFCWomen

Dregið var í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss í morgun.

Sex Íslendingalið verða í eldlínunni og drógust þrjú þeirra saman í D-riðil.

Þýska stórliðið Bayern München, þar sem Glódís Perla Viggósdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir eru á mála er í riðli með Spánarmeisturum Barcelona ásamt Svíþjóðarmeisturum Rosengård, sem Guðrún Arnardóttir leikur með og Glódís Perla lék áður með, og Portúgalsmeisturum Benfica, sem Cloé Eyja Lacasse leikur með.

Cloé er með íslenskan ríkisborgararétt eftir að hafa leikið við góðan orðstír hér á landi með ÍBV en er nú landsliðskona Kanada.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir og liðsfélagar hennar í París Saint-Germain drógust í A-riðil með Englandsmeisturum Chelsea og stórliði Real Madríd ásamt albönsku meisturunum í Vllazni.

Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur hennar hjá Þýskalandsmeisturum Wolfsburg drógust í B-riðil með Slavia Prag, sem sló Val út í undankeppninni, ásamt Austurríkismeisturum St. Pölten og Roma frá Ítalíu.

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði og leikmaður Ítalíumeistara Juventus, mætir þá liðinu sem hún yfirgaf í sumar, ríkjandi Evrópumeisturum og Frakklandsmeisturum Lyon, ásamt stórliði Arsenal og svissnesku meisturunum í Zürich.

Drátturinn í heild sinni:

A-riðill:

Chelsea

París SG

Real Madríd

Vllazni

B-riðill:

Wolfsburg

Slavia Prag

St. Pölten

Roma

C-riðill:

Lyon

Arsenal

Juventus

Zürich

D-riðill:

Barcelona

Bayern München

Rosengård

Benfica

mbl.is