Skórnir á hilluna eftir farsælan feril

Gonzalo Higuaín í leik með Inter Miami.
Gonzalo Higuaín í leik með Inter Miami. AFP/Lauren Sopourn

Argentínski knattspyrnumaðurinn Gonzalo Higuaín leggur skóna á hilluna eftir yfirstandandi tímabil í bandarísku atvinnumannadeildinni.

Framherjinn, sem er 34 ára, hefur átt afar farsælan feril og skorað meira en 300 mörk í yfir 700 leikjum með félögum á borð við Real Madrid, Napólí, Juventus, AC Milan og Chelsea. Þá hefur hann skorað 31 mark í 75 landsleikjum með Argentínu.

Higuaín barðist við tárin á meðan hann greindi frá ákvörðun sinni á blaðamannafundi í dag. Hann hefur leikið með Inter Miami frá árinu 2020 og skorað 27 mörk í 65 leikjum.  

Tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni í Bandaríkjunum og eftir það tekur við úrslitakeppni. Miami-liðið er sem stendur í sjöunda sæti Austurdeildarinnar, en efstu sjö liðin fara í úrslitakeppnina.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert