Bayern skoraði fimm mörk á heimavelli

Eric Maxim Choupo-Moting fagnar með Leon Goretzka eftir að hafa …
Eric Maxim Choupo-Moting fagnar með Leon Goretzka eftir að hafa rekið síðasta naglann í kistu Tékkanna í dag. AFP/Christof Stache

Bayern Munchen styrkti stöðu sína á toppi C-riðils Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld með þægilegum 5:0 sigri á Viktoria Plzen frá Tékklandi í þriðju umferð riðlakeppninnar.

Það var Leroy Sané sem kom Bæjurum á bragðið á 7. mínútu. Serge Gnabry bætti öðru marki þeirra við á 13. mínútu og á 21. mínútu kom Sadio Mané heimamönnum í 3:0 og þannig stóðu leikar í leikhléi.

Sané var aftur á ferðinni á 50. mínútu og varamaðurinn Eric Maxim Choupo-Moting bætti fimmta markinu við fyrir þýsku meistarana á 59. mínútu leiksins. Heimamenn höfðu algjöra yfirburði í leiknum, voru miklu meira með boltann, sköpuðu sér ótal færi og hefðu hæglega getað skorað fleiri mörk. Lokatölur í Munchen, 5:0.

Þýsku meistararnir eru með fullt hús stiga, hafa skorað 9 mörk og ekki enn fengið á sig mark í riðlinum. Viktoria Plzen er án stiga á botni riðilsins og hafa aðeins skorað eitt mark en fengið á sig tólf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert