Liverpool vann Rangers sannfærandi

Trent Alexander-Arnold fagnar marki sínu í kvöld.
Trent Alexander-Arnold fagnar marki sínu í kvöld. AFP/Nigel Roddis

Enska liðið Liverpool vann afar öruggan 2:0-sigur á skoska liðinu Rangers í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á Anfield í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var algjör eign heimamanna í Liverpool en liðið gaf andstæðingum sínum fáa sénsa til að prófa boltann. Strax á 7. mínútu fékk Liverpool aukaspyrnu á fínum stað sem Trent Alexander-Arnold smellti frábærlega í upp í vinstra hornið. Eftir markið fékk Liverpool mörg færi og þá helst Úrúgvæinn Darwin Nunez en þrátt fyrir það var staðan einungis 1:0 þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Á 52. mínútu fékk Luis Díaz boltann vinstra megin, keyrði inn á teiginn og fór mjög illa með John Lundstram og Leon King áður en sá síðarnefndi braut á honum. Vítaspyrna réttilega dæmd og Mohamed Salah skoraði af miklu öryggi úr henni. 

Mo Salah skorar annað mark Liverpool úr vítaspyrnu í kvöld.
Mo Salah skorar annað mark Liverpool úr vítaspyrnu í kvöld. AFP/Nigel Roddis

Eftir annað markið var róaðist leikurinn mikið og heimamenn keyrðu það sem eftir var nokkurn veginn í hlutlausum gír. Svo fór að mörkin urðu ekki fleiri og mjög þægilegur 2:0-sigur Liverpool staðreynd. Jürgen Klopp verður væntanlega mjög ánægður með þennan sigur en lítil orka fór í leikinn sem var þó aldrei í hættu.

Staðan í riðlinum er því þannig að ítalska liðið Napoli, sem vann hollenska liðið Ajax örugglega í hinum leik kvöldsins, er á toppnum með fullt hús stiga. Liverpool er í öðru sæti með 6 stig, Ajax í þriðja með 3 og Rangers á botninum án stiga.

Liverpool 2:0 Rangers opna loka
90. mín. Mohamed Salah (Liverpool) á skot sem er varið Salah kemst í fína stöðu einn á einn í skyndisókn en skot hans er laust og McGregor ver.
mbl.is