Úkraína óskar eftir að halda HM 2030 ásamt Spáni og Portúgal

Úkraína vill halda HM 2030 ásamt Spáni og Portúgal.
Úkraína vill halda HM 2030 ásamt Spáni og Portúgal. AFP/Andy Buchanan

Úkraína mun ásamt Spáni og Portúgal óska eftir því við alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, að fá að halda HM 2030 eftir að Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, gaf samþykki sitt fyrir því.

Samkvæmt The Guardian er búist við því að formlega verði tilkynnt um umsókn þjóðanna þriggja á fréttamannafundi á morgun.

Fari svo að FIFA samþykki umsókn þjóðanna þriggja er reiknað með því að einn riðill HM 2030 verði leikinn í heild sinni í Úkraínu.

Spánn og Portúgal tilkynntu fyrir tveimur árum síðan að þjóðirnar hygðust í sameiningu sækja um að halda HM en nú mun Úkraína bætast við.

Úkraína sætir nú blóðugri innrás Rússlands og hefur gert frá því í febrúar á þessu ári en samkvæmt The Guardian er reiknað með því að öldurnar hafi lægt umtalsvert að átta árum liðnum.

Úkraínsku landsliðin leika heimaleiki sína í Póllandi um þessar mundir og leikir í deildakeppnum þjóðarinnar fara fram fyrir luktum dyrum vegna innrásarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert