Xavi ósáttur: „Skil ekki neitt í neinu“

Eric García og Sergio Busquets mótmæla dómi Slavko Vincic í …
Eric García og Sergio Busquets mótmæla dómi Slavko Vincic í gærkvöld. AFP/Marco Bertorello

Xavi, knattspyrnustjóri karlaliðs Barcelona, var bálreiður eftir 0:1-tap liðsins gegn Inter Mílanó þar í borg í gærkvöld eftir að dómari leiksins, Slóveninn Slavko Vincic, sá ekki ástæðu til þess að dæma vítaspyrnu undir lok viðureignarinnar í Meistaradeild Evrópu.

Denzel Dumfries, vængbakvörður Inter, handlék þá boltann innan vítateigs og þrátt fyrir að Vincic hafi skoðað atvikið í VAR-skjánum ákvað hann ekki að dæma vítaspyrnu.

Myndband af atvikinu má sjá hér.

„Ég er reiður og pirraður yfir því sem við sáum. Þetta er óréttlæti. Ég sagði það á mánudag og verð að endurtaka það, en dómarar verða að svara fyrir sig og útskýra dóma sína því ég skil ekki neitt í neinu.

Dómarinn vildi ekki veita mér neina útskýringu eftir leikinn. Dómarar verða að tjá sig, en ég get ekki rætt um ákvörðun sem ég tók ekki sjálfur,“ sagði Xavi.

Hakan Calhanoglu skoraði sigurmark Inter undir lok fyrri hálfleiks. Pedri jafnaði metin á 66. mínútu en það mark var réttilega dæmt af þar sem Ansu Fati handlék boltann í aðdragandanum.

Xavi fannst þó sem jöfnunarmark Pedri hefði átt að standa þar sem Fati hefði ekki handleikið boltann viljandi.

„Fyrir mér hefðu þessar ákvarðanir átt að vera á kristaltæru. Ég skil ekkert í þessu,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert