Endurkoma United í fimm marka leik

Marcus Rahsford skorar í dag.
Marcus Rahsford skorar í dag. AFP/Khaled Desouki

Manchester United vann í kvöld 3:2-útisigur á Omonia frá Kýpur í Evrópudeildinni í fótbolta. United þurfti að hafa fyrir sigrinum, því heimamenn komust yfir og gáfu lítið eftir.

Karim Ansarifard kom Omonia óvænt yfir á 34. mínútu eftir glæsilega skyndisókn og var staðan í leikhléi 1:0, kýpverska liðinu í vil.

United kom sterkara til leiks í seinni hálfleik og varamaðurinn Marcus Rashford jafnaði á 53. mínútu og Anthony Martial, sem kom einnig inn á sem vamaður, kom United í 2:1 tíu mínútum síðar.

Lazio og Sturm Graz skildu jöfn.
Lazio og Sturm Graz skildu jöfn. AFP/Erwin Scheriau

Enska liðið var ekki hætt, því Rashford skoraði sitt annað mark og þriðja mark United á 84. mínútu. Mínútu síðar minnkaði Nikolas Panagiotou muninn í 3:2 en nær komust heimamenn ekki.

Real Sociedad er í toppsæti E-riðils með fullt hús stiga eftir þrjá leiki en liðið vann Sheriff frá Moldóvu á útivelli, 2:0. David Silva, fyrrverandi leikmaður Manchester City, og Artiz Elustondo gerðu mörkin. United er í öðru sæti riðilsins með sex stig.

Önnur úrslit úr leikjunum sem fóru af stað 16:45:
HJK Helsinki – Ludogorets 1:1
Zürich – PSV 1:5
Sturm Graz – Lazio 0:0
Mónakó – Trabzonspor 3:1
Rauða stjarnan – Ferencváros 4:1
Malmö - Union Berlin 0:1

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert