Ísland leikur um HM-sætið í Portúgal

Íslensku landsliðskonurnar leika í Portúgal á þriðjudaginn.
Íslensku landsliðskonurnar leika í Portúgal á þriðjudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Portúgal verður andstæðingur Íslands í úrslitaleiknum um sæti í lokakeppni heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu eftir að hafa unnið Belgíu, 2:1, í undanúrslitum umspilsins í portúgalska bænum Vizela í kvöld.

Leikur Portúgals og Íslands fer fram á þriðjudagskvöldið kemur, 11. október, í Pacos de Ferreira í norðurhluta Portúgals klukkan 17 að íslenskum tíma.

Portúgal náði forystunni á 28. mínútu þegar Diana Silva skoraði, 1:0. Tessa Wullaert, fyrirliði Belga, jafnaði metin, 1:1, á 40. mínútu og staðan var þannig í hálfleik.

Á 87. mínútu var dæmd vítaspyrna á Belga en eftir ítarlega skoðun af skjá breytti dómarinn því í aukaspyrnu og sýndi Amber Tysiak rauða spjaldið.

Carole Costa tók aukaspyrnuna en Nicky Evard markvörður Belga varði skot hennar í þverslána og yfir. Upp úr hornspyrnunni sem fylgdi í kjölfarið skoraði Costa með skalla, 2:1.

Belgar voru því manni færri og gerðu þrefalda skiptingu í kjölfarið en náðu ekki að ógna marki Portúgals í uppbótartímanum.

Íslenska liðið dvelur við æfingar í Algarve á  suðurströnd Portúgals og fer þaðan til Porto á sunnudaginn. Pacos de Ferreira er í aðeins 30 km fjarlægð frá Porto.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert