Segir fréttir um klásúlu í samningi Haalands ekki sannar

Erling Haaland og Pep Guardiola.
Erling Haaland og Pep Guardiola. AFP/Oli Scarff

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir ekkert hæft í fregnum spænskra fjölmiðla um að klásúla sé í samningi norska markahróksins Erlings Haalands sem geri honum kleift að ganga til liðs við Real Madríd eftir tvö ár.

„Þetta er ekki satt. Hann er ekki með klásúlu í tengslum við Real Madríd eða nokkurt annað lið,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi eftir 5:0-sigur Man. City á Íslendingaliði Kaupmannahafnar í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi.

Haaland skoraði þar tvö mörk í fyrri hálfleik og hefur þar með skorað 19 mörk í fyrstu 12 leikjum sínum fyrir Englandsmeistarana.

„Pirra svona orðrómur mig? Nei, alls ekki. Orðrómur og fólk að tala sín á milli, maður getur ekki stjórnað því. Við höfum alltaf aðeins áhyggjur af því sem við getum stjórnað.

Það mikilvæga er að hann hefur aðlagast afskaplega vel. Ég hef það á tilfinningunni að hann sér einstaklega hamingjusamur hér og það er mikilvægast,“ bætti Guardiola við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert