Stjórn Juventus segir af sér

Andrea Agnelli, annar frá vinstri, og Pavel Nedved, lengst til …
Andrea Agnelli, annar frá vinstri, og Pavel Nedved, lengst til hægri, eru á meðal þeirra sem hafa sagt af sér. AFP/Marco Bertorello

Stjórn ítalska knattspyrnufélagsins Juventus hefur sagt af sér eins og hún leggur sig. Á meðal stjórnarmanna sem sögðu af sér eru Andrea Agnelli forseti og Pavel Nedved varaforseti.

Juventus hefur sætt rannsókn saksóknara í Tórínó vegna ásakana um bókhaldssvindl og grunsamlegs háttalags þegar kemur að kaupum og lánum á leikmönnum á undanförnum árum.

Stjórnin hafði leitað til lögfræðinga vegna rannsóknarinnar og í tilkynningu frá félaginu segir að hún hafi ákveðið að segja af sér eftir að hafa þegið sérfræðiálit lögfræðinganna sem laut að lagalegum og bókhaldstengdum málum.

Agnelli er ásamt á annan tug annarra aðila grunaður um fjársvik þar sem stjórnendum Juventus er til að mynda gefið að sök að hafa greitt leikmönnum „svart“ og launin því ekki verið gefin upp til skatts. Þetta hafi falið í sér falsanir á reikningum.

Félagið tapaði 254 milljónum evra á síðasta ári, sem er met hjá knattspyrnufélagi á Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert