Skoraði fyrsta markið í Hollandi

Hildur Antonsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í hollensku úrvalsdeildinni í …
Hildur Antonsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í hollensku úrvalsdeildinni í kvöld. Ljósmynd/Fortuna Sittard

Knattspyrnukonan Hildur Antonsdóttir skoraði í kvöld sitt fyrsta mark í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Hildur kom Fortuna Sittard yfir í 2:1 gegn Telstar á heimavelli á 69. mínútu. Því miður fyrir Hildi var markið ekki sigurmark, því Telstar jafnaði í uppbótartíma.

Hildur og stöllur eru í þriðja sæti deildarinnar með 19 stig. Telstar er í botnsætinu með tvö stig, og var jöfnunarmarkið því högg fyrir Fortuna Sittard.

Hildur kom til félagsins fyrir leiktíðina frá Breiðabliki og var hún að leika sinn áttunda leik í hollensku úrvalsdeildinni. Hún lék allan leikinn.

mbl.is