Systir mín er besta knattspyrnukona heims

Lauren James í leik með enska landsliðinu.
Lauren James í leik með enska landsliðinu. AFP/Glyn Kirk

Knattspyrnumaðurinn Reece James hefur mikla trú á yngri systur sinni Lauren James og telur hana einfaldlega vera bestu knattspyrnukonu heims.

Systkinin leika bæði fyrir Chelsea og enska landsliðið en Reece er 23 ára gamall og Lauren  21 árs.

„Ég er gífurlega stoltur af henni. Hún veitir mér innblástur á hverjum degi og mun gera áfram.

Ég tel hana vera besta kvenkyns knattspyrnumann í heimi og að hún verði það næstu 10-15 ár, án nokkurs vafa.

Hún er tæknilega betri en sumir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni [í knattspyrnu karla],“ skrifaði Reece á Twitteraðgangi sínum í vikunni er hann svaraði spurningum aðdáenda.

Lauren vakti athygli fyrir vasklega framgöngu með Manchester United þar sem hún skoraði 22 mörk í 40 deildarleikjum í næstefstu og efstu deild.

Var hún svo keypt til Chelsea sumarið 2021 og varð deildar- og bikarmeistari með liðinu á sínu fyrsta tímabili með því.

Reece James í leik með Chelsea.
Reece James í leik með Chelsea. AFP/Alberto Pizzoli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert