Mætti ölvaður á æfingar hjá Real Madrid

Cicinho í leik með Roma árið 2009.
Cicinho í leik með Roma árið 2009. AFP

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Cicinho glímdi við mikinn áfengisvanda þegar hann lék með stórliði Real Madrid.

Frá þessu greindi leikmaðurinn í samtali við brasillísku sjónvarpsstöðina EPTV á dögunum en hann lék með spænska stórliðinu á árunum 2006 til 2007.

Alls lék bakvörðurinn 32 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann skoraði þrjú mörk og lagði upp önnur fimm en hann gekk til liðs við Roma í ágúst árið 2007 fyrir 11 milljónir evra.

„Ég drakk í kringum tíu bjóra á dag þegar ég var samningsbundinn Real Madrid,“ sagði Cicinho.

„Ég mætti ölvaður á æfingar en mér tókst alltaf að fela það. Ég drakk mikið kaffi þannig að það var engin lykt af mér. Ég baðaði mig líka í ilmvatni svo það myndi ekki finnast nein áfengislykt af mér,“ sagði Cicinho meðal annars.

Hann lagði knattspyrnuskóna á hilluna árið 2018 og hefur einbeitt sér að því að hjálpa fólki sem glímir við áfengisvanda síðustu ár.

mbl.is