Brynjar ekki lengur þjálfari Örgryte

Brynjar Björn á góðri stundu sem þjálfari Örgryte.
Brynjar Björn á góðri stundu sem þjálfari Örgryte. Ljósmynd/Örgryte

Knattspyrnuþjálfarinn Brynjar Björn Gunnarsson er hættur þjálfun sænska B-deildarfélagsins Örgryte, eftir tæplega hálft ár í starfi.

Félagið staðfesti tíðindin í dag og segir það sameiginlega ákvörðun félagsins og Brynjars að slíta samstarfinu.

Brynjar tók við Örgryte er liðið var á botni B-deildarinnar og án stiga eftir sjö umferðir. Undir stjórn Íslendingsins tókst liðinu að halda sæti sínu í deildinni, eftir umspilsleiki.

„Örgryte verður ávallt í hjarta mínu og ég er stoltur af mínu framlagi til félagsins, fyrst sem leikmaður og síðan þjálfari. Það voru forréttindi að þjálfa þetta lið,“ er haft eftir Brynjari á heimasíðu félagsins.

Andreas Karlsson, stjórnarformaður Örgryte, þakkaði Brynjari fyrir vel unnin störf. „Ég vil þakka honum kærlega fyrir og ég óska honum alls hins besta í framtíðinni,“ sagði hann í viðtali sem birtist á heimasíðu félagsins.

Jeffrey Aubynn hætti sem aðstoðarþjálfari Malmö til að taka við Örgryte af Brynjari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert