Greiddu Söru ekki laun þegar hún var barnshafandi

Sara Björk Gunnarsdóttir er nú á mála hjá Ítalíumeisturum Juventus.
Sara Björk Gunnarsdóttir er nú á mála hjá Ítalíumeisturum Juventus. Ljósmynd/@JuventusFCWomen

Knattspyrnukonan Sara Björk Gunnarsdóttir ritar afar athyglisverða grein sem birtist á The Players’ Tribune í dag. Þar ljóstrar Sara Björk því upp að Lyon hafi neitað að greiða henni þau laun sem hún átti rétt á þegar hún var barnshafandi.

Sara Björk rifjar upp þegar hún sagði öllum hjá félaginu að hún væri ófrísk. Liðslæknir Lyon ráðlagði henni að hætta að æfa og spila með liðinu en var Sara Björk ávallt staðráðin í að snúa aftur til æfinga og keppni eftir barnsburð.

Í samráði við Lyon var samþykkt að Sara Björk héldi til Íslands og yrði þar allt þar til hún fæddi son sinn, Ragnar Frank, sem er nú tæplega eins árs.

Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með Lyon.
Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með Lyon. AFP

„Lengi vel var svo margt annað í gangi að ég hafði ekki tíma til þess að hugsa um eða hafa nokkrar áhyggjur af launum mínum hjá félaginu. Ég hafði enga ástæðu til þess að telja að nokkuð myndi fara úrskeiðis.

Allt þar til ég fékk ekki launaseðilinn minn. Það eina sem ég fékk greitt var örlítil prósenta frá félagsþjónustu. Satt að segja voru ýmis skipulagsmál sem þurfti að greiða úr þannig að ég gaf þessu ekki of mikinn gaum.

Hugsaði að þetta væri líklega villa í bókhaldinu. En til þess að vera viss athugaði ég stöðuna hjá öðrum leikmönnum liðsins. Þeir fengu borgað, á hárréttum tíma,“ skrifaði Sara Björk.

Báru fyrir sig frönskum lögum

Hún hélt áfram:

„Svo fékk ég ekki næsta launaseðil minn. Þannig að ég hugsaði með mér: „Bíðum nú við.“ Ég hringdi í Dietmar [umboðsmann Söru Bjarka] og hann skrifaði Vincent, framkvæmdastjóra félagsins.

Við fengum engin svör, þannig að umboðsskrifstofa mín hafði aftur samband. Eftir það sendum við formleg bréf.“

Sara Björk Gunnarsdóttir vann Meistaradeild Evrópu í tvígang með Lyon.
Sara Björk Gunnarsdóttir vann Meistaradeild Evrópu í tvígang með Lyon. AFP/Marco Bertorello

Loks bárust svör frá framkvæmdastjóranum, sem baðst afsökunar á mánuðunum tveimur sem Sara Björk fékk ekki greidd laun og að hún myndi fá þau greidd.

En frá og með þriðja mánuðinum myndi hún ekki fá neitt frekar greitt frá Lyon. Félagið væri að fara eftir frönskum lögum og því myndi Sara Björk ekki fá frekari laun greidd á meðan hún væri barnshafandi.

Ættu að fara eftir FIFA-reglum

Sara Björk kveðst hafa sagt við umboðsmann sinn að þetta stæðist ekki, Lyon ætti að fara eftir reglum Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, um meðgöngu- og fæðingarorlof.

„Þessar reglur voru frekar nýjar en ég þekkti smávegis til þeirra. Ég man eftir því að Jodie Taylor sagði að FIFPRO [alþjóðleg leikmannasamtök atvinnumanna] væri að vinna að því að verða atvinnumönnum úti um meðgöngu- og fæðingarorlof,“ skrifaði hún.

Sara Björk Gunnarsdóttir, Ragnar Frank Árnason og Árni Vilhjálmsson.
Sara Björk Gunnarsdóttir, Ragnar Frank Árnason og Árni Vilhjálmsson. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Átti ekki framtíð hjá Lyon

Sara Björk kveðst hafa velt því fyrir sér hver réttindi hennar væru, sem henni hafi þótt skrítnar aðstæður að vera í, sérstaklega hjá þetta stóru félagi.

„Dietmar hélt áfram að ýta á eftir þessu þar sem hann sagði þeim: „Hey, enn engin laun.“ En við fengum engin svör.

Leikmannasamtökin í Frakklandi blönduðu sér í málið og FIFPRO gerði það svo síðan. Vikur urðu að mánuðum. Enn bólaði ekkert á fullum launum.

Lyon neitaði að gefa skýr svör um hvaða viðmiðum félagið væri að vinna út frá. Loks sagði Dietmar við Vincent að FIFPRO myndi berjast fyrir þessu á hæsta stigi, FIFA. Vincent svaraði því til: „Ef Sara fer með þetta til FIFA á hún enga framtíð hjá Lyon“.“

Áhyggjurnar hrönnuðust upp

Söru Björk sárnaði þessi skilaboð og fannst hún svikin. Mikil vanlíðan tók við þar sem Sara Björk óttaðist að þurfa að vera í frystikistunni síðustu sex mánuði samnings síns við Lyon.

„Áhyggjurnar hrönnuðust upp. Mér leið ömurlega. Eitt kvöldið sagði ég við Árna: „Kannski þarf ég bara að hætta.“

Þegar ég sagði félaginu fyrst frá óléttu minni virtust þau öll mjög hamingjusöm fyrir mína hönd og söðgu að þau myndu gera allt til að styðja við bakið á mig, og ég trúði því. En á þessum tímapunkti var ég ekki svo viss.

Sara Björk Gunnarsdóttir og Ragnar Frank Árnason.
Sara Björk Gunnarsdóttir og Ragnar Frank Árnason. Eggert Jóhannesson

Frá fyrsta apríl, daginn sem ég kom til Íslands, þar til í ágúst heyrði ég ekki frá neinum á skrifstofunni eða þjálfarateyminu. Ég var áfram í nánu sambandi við nokkra liðsfélaga ásamt lækninum og sjúkraþjálfaranum, bara persónulega.

Þau voru öll góðir vinir mínir. En félagið hafði aldrei formlega samband. Enginn athugaði hvernig mér gekk að æfa og hvernig óléttunni miðaði.“

Dauðþreytt á baráttunni

Sara Björk fæddi svo Ragnar Frank og sneri aftur til Lyon örfáum mánuðum síðar. Þar þótti henni það það morgunljóst innan skamms tíma að félagið vildi ekki hafa hana áfram í sínum herbúðum.

Barátta hennar fyrir því að fá laun sín fullgreidd áttu þar stóran hlut að máli að henni fannst auk þess sem öll samskipti væru í þá átt að það að Sara Björk ætti barn væri á einn eða annan hátt neikvætt.

Sara Björk Gunnarsdóttir lagði nýverið landsliðsskóna á hilluna.
Sara Björk Gunnarsdóttir lagði nýverið landsliðsskóna á hilluna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var dauðþreytt á allri þessari baráttu. Það var ljóst að burtséð frá því sem hafði verið sagt að eitt lykilatriði væri satt: Sem nýbökuð móðir átti ég enga framtíð hjá þessu félagi. Þau ætluðu að gera mér það ómögulegt.“

Átti fullan rétt á launum

Í maí síðastliðnum barst niðurstaða úr lögsókn FIFPRO. Lyon var fyrirskipað að greiða Söru Björk ógreidd laun sín, alla upphæðina sem hún hafði krafist.

Lyon krafðist þess að sjá röksemdafærslurnar fyrir ákvörðuninni. „Þar gátum við séð hvernig FIFA greindi málið og komst að niðurstöðu sinni.

Sambandið ræddi um „umönnunarskyldu“ félagsins, að það hafi ekki verið haft samband við mig á meðan ég var ólétt. Félagið bar ábyrgð á því að líta til með mér en gerði það ekki. Eftir að Lyon fékk röksemdafærslurnar ákvað félagið að áfrýja málinu ekki.

Sara Björk Gunnarsdóttir skorar skallamark fyrir Juventus.
Sara Björk Gunnarsdóttir skorar skallamark fyrir Juventus. Ljósmynd/@JuventusFCWomen

Ég átti rétt á að fá laun mín greidd að fullu á meðan ég var barnshafandi og þar til fæðingarorlof mitt hófst samkvæmt reglugerðum FIFA sem verður að fara eftir.

Þessar reglugerðir eru hluti af réttindum mínum og er ekki hægt að véfengja, jafnvel þó um risafélag eins og Lyon sé að ræða,“ skrifaði hún.

Vil að Lyon viti að þetta er ekki í lagi

„Þetta er ástæðan fyrir skrifum mínum. Mér leið eins og sigurinn væri stærri en bara ég. Mér leið sem þetta myndi marka tryggingu á fjárhagslegu öryggi allra leikmanna sem vilja eignast barn á meðan ferli þeirra stendur. Að það sé ekki eitthvað „kannski“ eða óþekkt.

Ég vil sjá til þess að enginn þurfi að ganga í gegnum það sem ég þurfti að gera nokkru sinni aftur. Og ég vil að Lyon viti að þetta er ekki í lagi. Þetta eru ekki „bara viðskipti.“

Þetta snýst um réttindi mín sem starfsmaður, konu og manneskju,“ skrifaði Sara Björk og sagði að lokum að knattspyrnukonur ættu betra skilið

Grein Söru Bjarkar má lesa í heild sinni á The Players' Tribune.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert