Bæjarar misstigu sig í toppbaráttunni

Joshua Kimmich í þann mund að skora jöfnunarmark Bayern München …
Joshua Kimmich í þann mund að skora jöfnunarmark Bayern München í kvöld. AFP/Christof Stache

Þýskalandsmeistarar Bayern München gerðu óvænt jafntefli, 1:1, á heimavelli gegn Köln í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu karla í kvöld.

Túnisbúinn Ellyes Skhiri kom gestunum í Köln yfir strax á fjórðu mínútu leiksins.

Það sem eftir lifði leiks voru Bæjarar með boltann nánast allan tímann, sköpuðu sér nokkur frábær færi en inn í markið vildi boltinn ekki, eða allt þar til á 90. mínútu þegar Joshua Kimmich skoraði og tryggði heimamönnum jafntefli.

Þrátt fyrir jafnteflið heldur Bayern toppsæti deildarinnar en er nú fjórum stigum fyrir ofan RB Leipzig í öðru sæti, auk þess sem Eintracht Frankfurt getur minnkað forskotið niður í þrjú stig með sigri á Freiburg annað kvöld.

Tveir leikir til viðbótar fóru fram í þýsku 1. deildinni í kvöld.

Wolfsburg vann einkar auðveldan sigur á Herthu Berlín, 5:0, í höfuðborginni.

Mattias Svanberg, Maximilian Arnold, Jonas Wind, Ridle Baku og Omar Marmoush skoruðu mörk Wolfsburg.

Hoffenheim og Stuttgart gerðu þá jafntefli, 2:2, í hörkuleik.

Andrej Kramaric kom Hoffenheim í forystu snemma leiks áður en Sehrou Guirassy jafnaði metin skömmu fyrir leikhlé.

Wataru Endo kom Stuttgart yfir tæpum stundarfjórðungi fyrir leikslok og mínútu síðar fékk Naouirou Ahamada sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Einum fleiri tókst Kramaric að jafna metin fyrir Hoffenheim og það á fjórðu mínútu uppbótartíma.

mbl.is