Bale keppir á PGA í febrúar

Gareth Bale fagnar síðasta markinu á ferlinum gegn Bandaríkjunum á …
Gareth Bale fagnar síðasta markinu á ferlinum gegn Bandaríkjunum á HM í Katar. AFP/Nicolas Tucat

Gareth Bale verður meðal keppenda á AT&T Pebble Beach Pro-Am golfmótinu en mótið er hluti af PGA-mótaröðinni. Hann greinir frá þessu á samfélagsmiðlum í dag. Á mótinu leika atvinnukylfingar með áhugakylfingum úr röðum ríka og fræga fólksins. 

Bale, sem er 33 ára gamall, hefur löngum verið mikill golfáhugamaður og skemmst er að minnast fána sem hann flaggaði með félögum sínum í landsliði Wales á Evrópumótinu árið 2020.

Hann tilkynnti fyrr í mánuðinum að fótboltaskórnir væru komnir á hilluna. Nú verða golfskórnir teknir fram og það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort Bale muni taka þátt á fleiri golfmótum í framtíðinni en hann þykir góður kylfingur.

mbl.is