Fara frá Orlando og halda til Íslands

Erin McLeod og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir ásamt hundi sínum.
Erin McLeod og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir ásamt hundi sínum. Ljósmynd/Orlando Pride

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og eiginkona hennar, Erin McLeod, hafa báðar sagt skilið við bandaríska knattspyrnuliðið Orlando Pride. Í tilkynningu frá félaginu er þeim óskað góðs gengis á Íslandi.

McLeod tilkynnti á Twitter-aðgangi sínum að förinni væri sannarlega heitið til Íslands.

Gunnhildur Yrsa hefur leikið með Orlando í NWSL-deildinni undanfarin tvö tímabil og McLeod undanfarin þrjú tímabil, en hún er þaulreyndur landsliðsmarkvörður Kanada og lék sem lánsmaður hjá Stjörnunni sumarið 2020.

Þar er Gunnhildur Yrsa einmitt alin upp en í tilkynningu Orlando kemur ekki fram til hvaða félags á Íslandi hjónin halda næst.

Gunnhildur Yrsa er 34 ára gömul og McLeod er 39 ára.

mbl.is