Endurkomusigur Real í Madrídarslagnum

Rodrygo jafnaði metin með frábærum marki.
Rodrygo jafnaði metin með frábærum marki. AFP/Thomas Coex

Real Madríd er komið í undanúrslit spænska bikarsins í fótbolta eftir framlengdan leik gegn nágrönnum sínum í Atlético Madríd á Santiago Bernabéu í kvöld. Leiknum lauk með 3:1-endurkomusigri Real. 

Fyrrum leikmaður Real-liðsins, Álvaro Morata, kom Atlético yfir á 19. mínútu eftir stoðsendingu frá Nahuel Molina. 

Rodrygo jafnaði metin fyrir Real á 79. mínútu með frábæru einstaklingsframtaki er hann sólaði mann og annan í vörn Atlético og setti boltann utanfótar í nærhornið fram hjá Jan Oblak. Venjulegur leiktími rann síðan út og því um framlengingu að ræða. 

Þar fékk Svartfellingurinn Stefan Savic, varnarmaður Atlético, tvö gul spjöld á tveimur mínútum og rautt fyrir vikið. Á 104. mínútu kom svo Karim Benzema Real yfir. 

Vincius Junior innsiglaði svo sigur Real endanlega í uppbótartíma, 3:1, og Real-liðið er á leiðinni í undanúrslitin. 

Ásamt Real komst Athletic Bilbao í undanúrslitin áðan eftir 3:1-útisigur á Valencia. Barcelona og Osasuna komust í undanúrslitin í gær og því er ljóst hvaða fjögur lið munu leika til undanúrslita. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert