Ofboðslega svekkjandi og sorglegt

Elísabet við heimavöllinn sinn í Kristianstad.
Elísabet við heimavöllinn sinn í Kristianstad. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari kvennaliðs sænska félagsins Kristianstad í fótbolta, fylgist vel með íslenska landsliðinu. Hún viðurkennir að það hafi verið erfitt að fylgjast með framgangi liðsins á síðasta ári.

Ísland gerði 1:1-jafntefli í öllum leikjum sínum á lokamóti EM og tapaði svo tveimur úrslitaleikjum við Portúgal og Holland með afar svekkjandi hætti, þegar sæti á lokamóti HM var undir.

Elísabet á grasinu á heimavellinum.
Elísabet á grasinu á heimavellinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var ofboðslega svekkjandi og sorglegt að horfa upp á þetta. Ég held ég tali fyrir alla Íslendinga þegar ég segi það. Það sem er mest svekkjandi er að íslenska liðið er mjög sterkt. Leikmennirnir eru nánast allir í toppliðum í Evrópu og við erum með möguleika til að byggja upp frábært landslið,“ sagði Elísabet.

Ísland á HM eftir fjögur ár

„Þess vegna hefði það verið mikilvægt skref að fara á HM. Það var leiðinlegt að missa af því. Ég hef engar áhyggjur af öðru en að Ísland verði á HM eftir fjögur ár. Leikmennirnir eru það góðir, en sóknaruppbyggingin þarf að vera betri,“ útskýrði Elísabet og hélt áfram:  

Síðasta ár var erfitt hjá íslenska landsliðinu.
Síðasta ár var erfitt hjá íslenska landsliðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Í vörninni er þetta mjög flott og vel skipulagt. Allir þekkja sín hlutverk, berjast og vinna saman eins og við Íslendingar gerum. Þetta lið mun ekki fá á sig mikið af mörkum. Föst leikatriði eru líka frábær hjá íslenska liðinu, bæði í vörn og sókn, og við fáum alltaf mörk þaðan. Annars staðar í sókninni erum við svolítið á eftir.

Það þarf að geta brotið upp leikinn og vera með fleiri vopn í búrinu. Það þarf að nota miðsvæðið betur en liðið gerði í öllum leikjum síðasta árs. Það verður að skapa meira og geta búið til fleiri hvíldaraugnablik, en ekki bara sparka boltanum fram,“ sagði hún.

Þora leikmenn ekki að framkvæma?

Lítið gekk í sóknarleik íslenska liðsins þegar mest var undir gegn Hollandi og Portúgal. Elísabet er ekki viss hvort leikskipulagið hafi ekki gengið upp, eða hvort það hafi hreinlega ekki verið nógu skýrt.

Ísland gerði jafntefli í öllum leikjum sínum á HM.
Ísland gerði jafntefli í öllum leikjum sínum á HM. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þið fjölmiðlamenn verðið að skoða þetta. Annaðhvort þora leikmenn ekki að framkvæma það sem er lagt upp með eða það vantar skýrara plan fyrir leikmenn, hvernig þeir eiga að þora að spila sig í gegnum andstæðinginn.

Þetta snýst allt um að brjóta niður varnarlínu andstæðinganna og hvernig þú ætlar að fara að því. Á EM var Ísland það lið sem spilaði flestum löngum boltum. Mögulega er það uppleggið í staðinn fyrir að fara aðrar leiðir,“ sagði Elísabet.

Nánar er rætt við Elísabetu í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu sem kemur út í fyrramálið. 

mbl.is