Allar með Söru Björk uppi á vegg

Elísabet á æfingasvæði liðsins í Kristianstad.
Elísabet á æfingasvæði liðsins í Kristianstad. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari kvennaliðs Kristianstad í fótbolta, hrósaði fyrrverandi landsliðsfyrirliðanum Söru Björk Gunnarsdóttur í hástert er Morgunblaðið ræddi við hana á æfingasvæði sænska liðsins.

Sara var nýbúin að gefa það út að hún væri hætt að leika fyrir íslenska landsliðið þegar rætt var við Elísabetu og hún hrósaði miðjukonunni, sem hefur náð lengst allra íslenskra knattspyrnukvenna frá upphafi, í hástert.

Elísabet fyrir framan heimavöllinn sinn í Kristianstad.
Elísabet fyrir framan heimavöllinn sinn í Kristianstad. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er gríðarlegur missir fyrir landsliðið, sem er auðvitað erfitt. Ég hefði viljað sjá hana taka tvö ár í viðbót, en það er erfitt að púsla saman lífinu þegar það er komið barn. Maður sér að hún hefur verið að berjast við meiðsli hjá Juventus. Annars er hún sá leikmaður sem hefur gefið íslenskum fótbolta hve mest,“ sagði Elísabet og hélt áfram:

„Hún hefur verið svakaleg fyrirmynd fyrir yngri stelpur. Nánast allar ungu stelpurnar sem hafa komið til mín voru með Söru Björk upp á vegg hjá sér. Hún er brautryðjandinn og sú sem hefur verið fyrst að komast í þessu stærstu lið í heiminum.

Sara Björk Gunnarsdóttir hefur leikið sinn síðasta landsleik.
Sara Björk Gunnarsdóttir hefur leikið sinn síðasta landsleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún hefur spilað með sænsku, þýsku, frönsku og ítölsku meisturunum. Það segir allt sem segja þarf um Söru Björk og hennar feril. Við þurfum örugglega að bíða lengi þar til við sjáum leikmann fara þetta flotta leið,“ sagði hún.

Elísabet segir unga íslenska leikmenn nú stefna að því að ná jafn langt og Sara Björk. „Við eigum samt leikmenn á leiðinni sem geta fetað í fótspor hennar. Það er frábært fyrir ungar stelpur og konur að eiga Söru Björk áfram sem fyrirmynd sem leikmaðurinn sem náði þessum árangri.“

Ítarlegt viðtal við Elísabetu má nálgast í Morgunblaðinu sem kom út í morgun.

mbl.is