Inter hafði betur í Íslendingaslagnum

Alexandra Jóhannsdóttir og Guðný Árnadóttir með íslenska landsliðinu síðasta sumar.
Alexandra Jóhannsdóttir og Guðný Árnadóttir með íslenska landsliðinu síðasta sumar. mbl.is/Hákon

AC Milan og Inter mættust í Mílanó-slag í ítölsku A-deild kvenna í knattspyrnu í dag.

Irene Santi kom Inter yfir strax á annarri mínútu leiksins og Tabitha Chawinga bætti við marki á 16. mínútu. Martina Piemonte minnkaði muninn fyrir AC Milan á 33. mínútu en í síðari hálfleik bættu Ghoutia Karchouni og Chawinga við mörkum fyrir Inter. Lokatölur því 4:1.

Guðný Árnadóttir lék allan leikinn í vörn AC Milan en Anna Björk Kristjánsdóttir var allan tímann á varamannabekk Inter.

Inter er í fjórða sæti deildarinnar með 29 stig en AC Milan er sæti neðar með 25 stig.

Alexandra Jóhannsdóttir var einnig í eldlinunni en hún spilaði allan leikinn í liði Fiorentina í sigri á Pomigliano, 2:0. Zsanett Bernadett Kaján skoraði bæði mörk Fiorentina í leiknum en liðið er í þriðja sæti deildarinnar með 31 stig, líkt og Juventus sem er í öðru sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert