Missir af sínum fyrsta leik síðan árið 2016

Inaki Williams var í landsliðshópi Gana á heimsmeistaramótinu í Katar …
Inaki Williams var í landsliðshópi Gana á heimsmeistaramótinu í Katar í desember. AFP/Khaled Desouki

Ganverjinn Inaki Williams er ekki í leikmannahópi Athletic Bilbao sem heimsækir Celta Vigo í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í dag.

Það sem er merkilegt við það er að þetta er fyrsti deildarleikurinn síðan í apríl 2016 sem Williams missir af en hann glímir við meiðsli. Hann lék því hvorki meira né minna en 251 leik í röð fyrir liðið. 

Í október árið 2021 lék hann sinn 203. leik í röð og bætti þá metið yfir flesta leiki spilaða í röð. Hann hefur verið í herbúðum Bilbao síðan árið 2014 en í heildina hefur hann leikið 290 deildarleiki fyrir liðið og skorað í þeim 58 mörk.

Þekkst hefur að markverðir leiki marga leiki í röð en það sem gerir afrek Williams enn merkilegra er að hann er sóknarmaður.

mbl.is