Einn mest spennandi leikmaður í sögu félagsins

Hákon Arnar Haraldsson hefur slegið í gegn með Köbenhavn.
Hákon Arnar Haraldsson hefur slegið í gegn með Köbenhavn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jacob Neestrup, knattspyrnustjóri Köbenhavn í Danmörku, sparaði ekki stóru orðin þegar hann ræddi íslenska landsliðsmanninn Hákon Arnar Haraldsson á dögunum.

Hákon Arnar, sem er einungis 19 ára gamall, gekk til liðs við danska félagið frá uppeldisfélagi sínu ÍA árið 2021 en hann hefur slegið í gegn með Kaupmannahafnarliðinu á yfirstandandi keppnistímabili.

Þá bárust fréttir af því á dögunum að danska félagið hefði hafnað stóru tilboði frá austurríska meistaraliðinu RB Salzburg í miðjumanninn.

„Hákon Arnar er einn mest spennandi leikmaður í sögu félagsins,“ sagði Nestrup í samtali við danska miðilinn Tipsbladet.

„Fyrir mér er hann afar vanmetinn leikmaður. Hann er ekki bara frábær með boltann því hann er líka frábær varnarmaður og pressan hans er fyrsta flokks.

Það er í raun ótrúlegt að skoða hlaupatölurnar hans eftir leiki. Það hljóp enginn meira en hann á móti Dortmund til dæmis. Hann er bara 19 ára en samt er hann farinn að spila eins og hann hafi ekki gert neitt annað í langan tíma,“ sagði Neestrup meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert