Gerðu aðsúg að leikmanni liðsins við heimili hans

Nicolo Zaniolo, til vinstri, í leik með Roma.
Nicolo Zaniolo, til vinstri, í leik með Roma. AFP/Filippo Monteforte

Nicolo Zaniolo, leikmaður ítalska knattspyrnuliðsins Roma, þurfti að kalla til lögreglu í gærkvöld eftir að hópur stuðningsmanna félagsins gerði aðsúg að honum við heimili hans í Rómarborg.

Zaniolo reyndi að komast burt frá Roma fyrr í þessum mánuði en síðan snerist honum hugur og hafnaði tilboði frá enska félaginu Bournemouth. 

Eftir að Roma tapaði fyrir Napoli í grannaslag í ítölsku A-deildinni í gær, 2:1, þar sem Zaniolo var ekki í leikmannahópnum, safnaðist hópur stuðningsmannanna, svokallaðir „Ultras“ saman við heimili Zaniolos, sungu níðsöngva til hans og skipuðu honum að hypja sig á brott.

Samkvæmt ítölskum fjölmiðlum þurfti Zaniolo að forða sér undan þeim á hlaupum og hringdi á lögregluna sem dreifði hópnum skjótt.

Zaniolo er 23 ára gamall ítalskur landsliðsmaður sem hefur leikið með Roma í tæp fimm ár eftir að félagið keypti hann af Inter Mílanó. Hann skoraði sigurmark Roma þegar liðið vann Feyenoord í úrslitaleik Sambandsdeildar Evrópu, 1:0, síðasta vor. Hann hefur ekki komið við sögu í þremur síðustu leikjum Roma í deildinni.

mbl.is