Hákon fer ekki fet

Hákon Arnar Haraldsson í leik með FC Köbenhavn í Meistaradeild …
Hákon Arnar Haraldsson í leik með FC Köbenhavn í Meistaradeild Evrópu í haust. AFP/Cristina Quicler

Jacob Neestrup, knattspyrnustjóri FC Köbenhavn, segir að íslenski landsliðsmaðurinn Hákon Arnar Haraldsson muni ekki yfirgefa félagið í janúarglugganum.

Hákon Arnar hefur verið sterklega orðaður við Austurríkismeistara Red Bull Salzburg og greindi danski miðillinn Ekstra Bladet til að mynda frá því að Köbenhavn hefði hafnað tilboði Salzburg upp á 2,1 milljarð íslenskra króna fyrr í mánuðinum.

„Það hafa verið orðrómar, en hann verður hér áfram. Því þarf ég ekki að bíða eftir því að glugginn lokist því hann verður hér enn þegar 1. febrúar gengur í garð.

Það hafa líka verið orðrómar um aðra leikmenn sem ég veit ekkert um, en það er hluti af þessu. Sögusagnirnar trufla mig ekki. 99% af þessum sögusögnum passa bara alls ekki þannig að ég er mjög rólegur,“ sagði Neestrup í samtali við fótboltamiðilinn Bold.dk.

Orðrómarnir um Hákon Arnar, sem er 19 ára gamall, hafa einungis orðið háværari eftir því sem líða hefur tekið á mánuðinn.

„Það er ekkert pirrandi því ég svara fyrir þessa orðróma. En ef þú spyrð mig tíu sinnum til viðbótar gæti vel verið að þeir verði pirrandi,“ bætti Neestrup við og hló.

Danski stjórinn var á mála hjá FH sumarið 2010 og lék sex leiki í efstu deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert