María orðin liðsfélagi Hildar

María Catharina Ólafsdóttir glaðbeitt með keppnistreyju Fortuna Sittard.
María Catharina Ólafsdóttir glaðbeitt með keppnistreyju Fortuna Sittard. Ljósmynd/Fortuna Sittard

Knattspyrnukonan María Catharina Ólafsdóttir Gros er gengin í raðir hollenska úrvalsdeildarfélagsins Fortuna Sittard. Kemur hún frá Þór/KA og skrifaði undir samning sem gildir til loka yfirstandandi tímabils.

María Catharina, sem er 19 ára gamall kantmaður, lék með stórliði Celtic í skosku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og sneri svo aftur til Þórs/KA um mitt síðasta sumar.

Hjá Sittard hittir hún fyrir Hildi Antonsdóttur, sem gekk til liðs við félagið síðasta sumar frá Breiðabliki.

Hildur Antonsdóttir í leik með Fortuna Sittard.
Hildur Antonsdóttir í leik með Fortuna Sittard. Ljósmynd/Fortuna Sittard

Sittard er sem stendur í þriðja sæti hollensku deildarinnar með 22 stig, ellefu stigum á eftir Twente og Ajax í efstu tveimur sætunum.

María Catharina á að baki 66 leiki fyrir Þór/KA í efstu deild, þar sem hún hefur skorað tíu mörk. Hjá Celtic var hún í stóru hlutverki og varð til að mynda bikar- og deildabikarmeistari með liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert