Mettilboði Arsenal hafnað

Alessia Russo fagnar marki í leik með enska landsliðinu.
Alessia Russo fagnar marki í leik með enska landsliðinu. AFP/Justin Tallis

Kauptilboði kvennaliðs Arsenal í enska sóknarmanninn Alessiu Russo, sem er metupphæð fyrir knattspyrnukonu, hefur verið hafnað af Manchester United.

Sky Sports greinir frá.

Breskir fjölmiðlar greindu frá því fyrr í kvöld að Arsenal hafi boðið upphæð fyrir Russo sem er hærri en núverandi heimsmet, 400.000 pund fyrir Keiru Walsh síðasta sumar.

Samningur Russo við Man. United rennur út í sumar en þrátt fyrir það ákvað félagið að hafna tilboði Arsenal.

Eflaust hefur það eitthvað að segja að liðin tvö eiga í harðri baráttu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þar sem Man. United er á toppnum með þriggja stiga forskot á Arsenal í öðru sæti.

Sala á besta sóknarmanni liðsins til síns helsta keppinauts, og það örskömmu áður en janúarglugginn lokast, er því ekki nokkuð sem Man. United hugnast þrátt fyrir að eiga á hættu að missa Russo án greiðslu í sumar.

mbl.is