Longstaff skaut Newcastle í úrslit

Sean Longstaff fagnar öðru marki sínu og Newcastle í kvöld.
Sean Longstaff fagnar öðru marki sínu og Newcastle í kvöld. AFP/Paul Ellis

Newcastle United tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu karla með því að leggja Southampton að velli, 2:1, í síðari leik liðanna í undanúrslitum keppninnar.

Newcastle vann fyrri leikinn í Southampton 1:0 og var því í fínni stöðu fyrir leik kvöldsins í Newcastle.

Hann byrjaði einstaklega vel fyrir heimamenn þar sem Sean Longstaff var búinn að koma Newcastle á bragðið eftir aðeins fimm mínútna leik og bætti svo við öðru marki sínu og liðsins á 21. mínútu.

Ché Adams minnkaði muninn fyrir Southampton stuttu síðar, á 29. mínútu.

Á 80. mínútu fékk Bruno Guimaraes beint rautt spjald fyrir fólskulegt brot á Samuel Edozie, kantmanni Southampton. Fékk hann spjaldið eftir að Paul Tierney, dómari leiksins, ráðfærði sig við VAR-skjáinn.

Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og 2:1-sigur Newcastle og samanlagður 3:1-sigur liðsins var því niðurstaðan.

Newcastle mætir að öllum líkindum Manchester United í úrslitaleik deildabikarsins, en liðið vann fyrri leik sinn gegn Nottingham Forest 3:0 á útivelli og útlitið er því einkar gott fyrir Rauðu djöflana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert