Nokkrir nýliðar Chelsea sitja eftir í Evrópu

Líklegt má telja að Mykhailo Mudryk verði einn þriggja leikmanna …
Líklegt má telja að Mykhailo Mudryk verði einn þriggja leikmanna sem bætast við Meistaradeildarhóp Chelsea. AFP/Ben Stansall

Enska knattspyrnufélagið Chelsea hefur farið mikinn á leikmannamarkaðnum í janúar og fengið til sín sex leikmenn.

Sá sjöundi gæti verið á leiðinni þar sem viðræður eiga sér nú stað við Benfica vegna argentínska miðjumannsins Enzo Fernández.

Chelsea er komið áfram í Meistaradeild Evrópu þar sem liðið mætir Borussia Dortmund í 16-liða úrslitunum.

Fyrir þá viðureign má Chelsea gera þrjár breytingar á leikmannahópi sínum í Meistaradeildinni.

Joao Félix, Mykhailo Mudryk, Benoit Badiashile, Noni Madueke, David Datro Fofana og Andrey Santos eru allir komnir til liðs við Chelsea í janúar og gæti Fernández bæst við.

Einungis þrír af þessum þremur leikmönnum mega hins vegar koma inn í 25-manna hóp liðsins í Meistaradeild Evrópu.

Þá gildir einu að fjórir leikmannanna, Badiashile, Madueke, Fofana og Santos, eru 21 árs eða yngri.

Chelsea hefur líkt og önnur félög lagt fram lista yfir leikmenn á þeim aldri, svokallaðan B-lista, en til þess að vera gjaldgengur á hann þarf leikmaður að hafa verið á mála hjá félagi í tvö ár samfleytt eða þrjú ár með einu láni til liðs innan sama knattspyrnusambands.

Nokkur höfuðverkur bíður því Grahams Potters, knattspyrnustjóra Chelsea, við val á leikmönnunum þremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert