55 ára semur við B-deildar lið í Portúgal

Kazuyoshi Miura, bláklæddur, í leik með Yokohama FC gegn Yokohama …
Kazuyoshi Miura, bláklæddur, í leik með Yokohama FC gegn Yokohama F Marinos í efstu deild Japans árið 2020. AFP

Japanski knattspyrnumaðurinn Kazuyoshi Miura er engum líkur. Þrátt fyrir að vera 55 ára gamall er hann enn atvinnumaður og skrifaði í gær undir lánssamning við portúgalska B-deildar liðið Oliveirense út yfirstandandi tímabil.

Miura, sem fagnar 56 ára afmæli sínu í lok febrúar, kemur að láni frá Yokohama FC, sem leikur í efstu deild í Japan.

Hann hóf feril sinn árið 1986 með Santos í Brasilíu og lék 89 landsleiki fyrir Japan á árunum 1990 til 2000, þar sem Miura skoraði 55 mörk.

Miura hefur áður látið hafa það eftir sér að hann hyggist spila á sem hæstu stigi allt fram til sextugs.

Hann varð langsamlega elsti leikmaðurinn til þess að skora í atvinnumannadeild í Japan þegar hann komst á blað í B-deildinni þar í landi árið 2017, þá nýorðinn fimmtugur.

mbl.is