Dýrkeyptur sigur hjá Messi og félögum

Lionel Messi skoraði í kvöld.
Lionel Messi skoraði í kvöld. AFP/Pascal Guyot

Frakklandsmeistarar París SG fögnuðu 3:1-útisigri á Montpellier í frönsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld.

Fyrri hálfleikur reyndist Parísarliðinu dýrkeyptur, því Kylian Mbappé og Sergio Ramos fóru báðir af velli vegna meiðsla. Mbappé fór af velli á 21. mínútu, en stuttu áður varði Benjamin Lecomte vítaspyrnu frá honum.

Þrátt fyrir áföll kom Fabián Ruiz PSG yfir á 55. mínútu og 20 mínútum síðar bætti Lionel Messi við öðru marki meistaranna.

Arnaud Nordin minnkaði muninn á 89. mínútu en varamaðurinn Warren Zaire-Emery gulltryggði 3:1-sigur Parísarliðsins í uppbótartíma.

PSG er með fimm stiga forskot á Marseille á toppnum þegar 21 umferð af 38 er lokið.

mbl.is