Óheppnin eltir Pogba

Paul Pogba þarf að bíða lengur eftir því að fá …
Paul Pogba þarf að bíða lengur eftir því að fá að spila með Juventus. AFP/Isabella Bonotto

Franski knattspyrnumaðurinn Paul Pogba hefur ekkert leikið með ítalska liðinu Juventus á leiktíðinni vegna meiðsla. Hann verður ekki klár í bikarleikinn gegn Lazio á morgun, eins og vonir stóðu til. 

Pogba var allan tímann á varamannabekk Juventus er liðið mæti Monza á heimavelli á sunnudaginn var og tapaði óvænt 0:2. Stóðu því vonir til að hann yrði klár í leikinn gegn Lazio í bikarnum annað kvöld en svo er ekki.

„Það var bakslag hjá Pogba og hann verður ekki klár á morgun,“ sagði Massimiliano Allegri, knattspyrnustjóri Juventus, á blaðamannafundi í dag. „Það er óvíst hvenær hann verður klár í slaginn. Við sjáum til hvort hann nái næsta deildarleik,“ bætti hann við.

Pogba kom til Juventus frá Manchester United í sumar, en vegna meiðsla hefur hann ekki leikið eina einustu mínútu fyrir liðið. Þá missti hann af HM vegna meiðslanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert