Franska knattspyrnufélagið París Saint-Germain leitaðist eftir því við samband atvinnudeilda í knattspyrnu í Frakklandi að gefa grænt ljós á félagaskipti Hakim Ziyech frá Chelsea, sem féllu upp fyrir í gærkvöldi.
Búið var að samþykkja lánssamning út yfirstandandi tímabil og Ziyech var mættur til Parísar til þess að skrifa undir.
Chelsea gerði hins vegar mistök í sinni pappírsvinnu, skilaði ekki inn réttum gögnum, og tilraunir til leiðréttinga gengu ekki upp.
Samkvæmt Melissu Reddy, íþróttafréttakonu hjá Sky Sports, sendi Chelsea upphaflega röng gögn til PSG en sendi í kjölfarið rétt gögn í tvígang, en í bæði skiptin óundirrituð.
Réttu gögnin, undirrituð, bárust loksins en hins vegar of seint.
Samband atvinnudeilda í knattspyrnu í Frakklandi, sem er á vegum franska knattspyrnusambandsins, hittist á fundi í morgun til þess að ræða áfrýjun PSG, þar sem félagið vonaðist eftir því að sambandið myndi samþykkja skiptin þó gögnin hafi borist of seint.
Þar var hins vegar ákveðið að vísa áfrýjuninni frá og Ziyech verður því um kyrrt hjá Chelsea, að minnsta kosti út tímabilið.