Stjóri PSG kennir Chelsea um

Christophe Galtier fórnar höndum.
Christophe Galtier fórnar höndum. AFP/Anne-Christine Poujoulat

Knattspyrnumaðurinn Hakim Ziyech var mættur til Parísar í fyrrakvöld til að ganga frá lánssamningi við Frakklandsmeistara París SG frá Chelsea á Englandi.

Vegna mistaka við afhendingu gagna frá Chelsea, varð ekkert úr félagaskiptunum. Ziyech var allt annað en sáttur við mistökin, þar sem hann vildi ólmur skipta um félag.

Miðjumaðurinn hefur aðeins einu sinni verið í byrjunarliði Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og vill komast í félag þar sem hann fær að spila meira. 

Christophe Galtier, knattspyrnustjóri PSG, kenndi Chelsea um að ekki náðist að ganga frá samningi Marokkómannsins.

„Við náðum ekki að ganga frá félagaskiptunum, en það er ekki okkur að kenna,“ sagði Galtier á blaðamannafundi í dag. Goal greinir frá í dag að Chelsea hafi sent vitlaus skjöl í þrígang til Parísar og því fór sem fór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert