Fyrrum leikmaður Grindavíkur yfirgefur Liverpool

Rachel Furness (til vinstri) í leik með Grindavík sumarið 2010.
Rachel Furness (til vinstri) í leik með Grindavík sumarið 2010. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Norður-írska landsliðskonan Rachel Furness hefur fengið samningi sínum við kvennalið Liverpool í knattspyrnu rift.

Furness, sem lék með Grindavík í efstu deild hér á landi sumarið 2010 og skoraði þar þrjú mörk í 12 leikjum, hefur leikið með Liverpool frá árinu 2019.

Þar skoraði hún 19 mörk í 64 leikjum í öllum keppnum og hjálpaði liðinu til að mynda að vinna ensku B-deildina á síðasta tímabili.

Samkvæmt BBC Sport heldur Furness nú til Bristol City, sem var í harðri baráttu við Liverpool um að komast upp í úrvalsdeild á síðasta tímabili og er sömuleiðis í toppbaráttu á þessu tímabili.

Hún er 34 ára gömul og er markahæsti leikmaður í sögu norður-írska kvennalandsliðsins með 38 mörk, sem Furness hefur skorað í 85 landsleikjum.

Furness í harðri baráttu við Ólínu G. Viðarsdóttur í landsleik …
Furness í harðri baráttu við Ólínu G. Viðarsdóttur í landsleik Íslands og Norður-Írlands sumarið 2010. Eggert Jóhannesson
mbl.is