Mamma skammaðist sín alltaf

​Will Still er enn taplaus sem aðalþjálfari Reims.
​Will Still er enn taplaus sem aðalþjálfari Reims. AFP/Pascal Guyot

Breski Belginn Will Still er yngsti þjálfarinn í bestu deildum Evrópu, aðeins þrítugur að aldri. Hann þjálfar Reims í Frakklandi og er að ná prýðilegum árangri. Still kveðst löngu kominn fram úr sínum villtustu draumum.

Hann áttaði sig ungur á því að hann yrði aldrei atvinnumaður í knattspyrnu. Rófan gekk ekki hjá liðum á borð við Tempo Overijse og Wavre Limal og okkar maður ákvað að einbeita sér framvegis að þjálfun. Hann var nefnilega afburðamaður í tölvuleikjum á borð við Football Manager. Daginn fyrir þrítugsafmælið sitt tók hann við stjórnartaumunum hjá Reims, sem leikur í efstu deild í Frakklandi, og er enn ósigraður, 13 leikjum síðar.

Nei, þetta er ekki kynning á hugljúfri en óraunsærri öskubusku­kvikmynd, heldur blákaldur veru­leiki. Breski Belginn Will Still er í raun og sann tekinn við Reims og gengur alveg glimrandi vel í sínu langstærsta verkefni til þessa. Um liðna helgi náði Reims jafntefli gegn sjálfum Frakklandsmeisturum Paris Saint-Germain á útivelli, þegar Folarin Balogun skoraði seint í uppbótartíma, 1:1. Það er í annað sinn á þessum vetri sem meisturunum mistekst að leggja Still og Reims að velli. Þessu var fylgt eftir með 4:2-sigri á Lorient í vikunni.

Folarin Balogun, lærisveinn Stills, er markahæstur í Ligue 1.
Folarin Balogun, lærisveinn Stills, er markahæstur í Ligue 1. AFP/Anne-Christine Poujoulat


„Hefði einhver sagt mér að ég yrði aðalþjálfari liðs í Ligue 1 þrítugur hefði ég beðið viðkomandi að gefa mér á lúðurinn,“ segir Still í samtali við breska blaðið The Guardian. „Það hefði verið galin pæling að ég yrði að stjórna liði gegn Neymar, Kylian Mbappé, Sergio Ramos og Marco Verratti, og í varamannaskýlinu við hlið Christophe Galtiers.“

En lífið lætur ekki að sér hæða. „Ég hef aldrei sett neitt þak á það sem ég gæti áorkað en heldur aldrei sett mér nein sérstök markmið. Þegar ég byrjaði að þjálfa ætlaði ég aldrei að vera kominn í frönsku deildina fyrir einhvern ákveðinn tíma. Það er bara ekki ég. Aðalatriðið er bara að njóta þess sem ég er að gera hverju sinni.“

Still viðurkennir, í samtali við breska blaðið Daily Mail, að hann hafi verið afleitur leikmaður. „Ég var djúpur á miðjunni, alls ekki sá fljótasti, hleyp hundrað metrana á um það bil tíu dögum. En ég hætti aldrei að hlaupa og held að menn hafi hatað að spila á móti mér, vegna þess að ég var alltaf stærstur. Ég steig bara á ristina á einum eða rakst í hnakkann á öðrum. Ég, þessi dagfarsprúði maður, varð að fanti þegar ég steig inn á fótboltavöll. Mamma skammaðist sín alltaf þegar hún horfði á mig.“

Still er af bresku foreldri en fæddur og uppalinn í Belgíu. Hann bjó til skamms tíma í Bretlandi á framhaldsskólaárum sínum. „Þar áttaði ég mig á því að fótbolti snýst um margt fleira en að bara spila. Það er þjálfun, að finna leikmenn, sjúkraþjálfun og líkamlegur undirbúningur. Mér leist best á þjálfunina. Þar kæmist ég næst adrenalínrússinu sem fæst þegar maður spilar,“ segir hann í The Guardian.

Still var ekki nema 19 ára þegar hann tók við sínu fyrsta starfi; var þá gerður að aðstoðarþjálfara hjá liði Preston North End, sem skipað var leikmönnum 14 ára og yngri. 25 ára kom hann inn í þjálfarateymið hjá Lierse, sem lék í 2. deild í Belgíu, þar sem hann hafði það hlutverk að rýna í lið andstæðinganna og klippa til myndbönd. 2016 tók hann tímabundið við liðinu og nældi í 21 af 27 stigum. Um vorið varð Still hins vegar frá að hverfa þar sem hann bjó ekki að viðurkenndum þjálfararéttindum.

Still og Christophe Galtier, þjálfari PSG, á hliðarlínunni um liðna …
Still og Christophe Galtier, þjálfari PSG, á hliðarlínunni um liðna helgi. AFP/Geoffroy van der Hasselt


Þaðan lá leiðin til Beerschot í Belgíu, þar sem Still varð aðstoðar­knattspyrnustjóri. Liðið komst upp í efstu deild og þegar Hernán Losada færði sig yfir hafið til Bandaríkjanna tók Still við sem aðalþjálfari. Hann skilaði liðinu í níunda sæti en um vorið var samt annar og reyndari maður ráðinn.

Ánetjaðist tölvuleiknum

Enda þótt hann væri orðinn aðalþjálfari hjá atvinnuliði hélt Still áfram að þreifa sig áfram með alls kyns pælingar í Football Manager. „Ég hélt aldrei að Football Manager hefði haft eiginleg áhrif á feril minn en eftir á að hyggja var það sannarlega þannig. Ég ánetjaðist leiknum sem barn og það kveikti líklega neistann sem varð að bálinu sem nú brennur innra með mér á hliðarlínunni. Ég var með leikinn á heilanum sem barn og við bróðir minn spiluðum hann án afláts á heimilistölvunni,“ segir hann við The Guardian.

Næst opnuðust dyrnar hjá Reims. Still var ráðinn aðstoðarmaður Óscars García knattspyrnustjóra árið 2021. „Ég trúði þessu varla. Það var óraunverulegt að Reims vissi ekki bara hver ég var heldur hafði verið að fylgjast með þjálfaraferli mínum. Ég var óþekkt nafn – alla vega hélt ég það – utan Belgíu. Belgía er ósköp lítil og einangruð þegar maður er þar,“ segir Still við The Guardian.

Hann sneri aftur heim til Belgíu eftir fjóra mánuði og fór að vinna fyrir Standard Liège, einkum vegna þess að þjálfaranámskeiðið sem hann sótti fór fram þar. Bensínreikningurinn var víst orðinn býsna hár. 

Still sneri aftur til Reims síðasta haust sem aðstoðarmaður García; með þjálfaraskírteinið upp á vasann. Liðið fór illa af stað og daginn fyrir þrítugsafmæli Stills í október var García látinn taka pokann sinn. Og Still bauðst að taka tímabundið við liðinu sem lá í blóði sínu í næstneðsta sæti deildarinnar.

Reimsliðar fagna marki gegn Lorient í vikunni.
Reimsliðar fagna marki gegn Lorient í vikunni. AFP/Denis Charlet


„Þetta var alveg galið. Síminn hringdi. Það voru eigendurnir. „Óscar er að fara,“ sögðu þeir. „Þú ert samningsbundinn okkur og getur ekki hætt. Við viljum að þú takir við.“ Ég átti engra kosta völ og hafði engan tíma til að velta vöngum,“ segir hann í The Guardian.

Fyrsta verkefnið var að klára leikina sex fram að HM, síðan yrði staðan tekin á ný. Fyrsti mótherjinn var PSG. Still viðurkennir að hann hafi verið ein taugahrúga vikuna fyrir leikinn. „Þegar nær leið leik byrjuðu taugarnar að róast og þegar leikmennirnir hófu að hita upp gerðist eitthvað sem ekki er hægt að útskýra; taugarnar fuku út um gluggann og ég varð ótrúlega einbeittur. Það var leikur og verk að vinna.“

Leikurinn fór 0:0 og þegar HM-hléið brast á var Still en ósigraður. Þannig að eigendurnir hugsuðu með sér: Gott og vel, áfram með smjerið!

Nú eru leikirnir orðnir 13, sjö sigrar og sex jafntefli, og Reims komið upp í 11. sæti, fjarri fallslagnum. Já, við skulum muna þetta kjarngóða nafn, Will Still! 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »