Fannst á lífi í rústunum

Christian Atsu fannst á lífi.
Christian Atsu fannst á lífi. AFP

Christian Atsu, fyrrverandi leikmaður ensku knattspyrnuliðanna Newcastle, Everton og Chelsea og núverandi leikmaður Hatayspor í Tyrklandi, fannst á lífi í rústum byggingar sem hrundi í jarðskjálftunum skæðu sem riðu yfir Tyrkland og Sýrland.

Atsu grófst undir rústum byggingar sem hrundi þegar jarðskjálftinn reið yfir, ásamt Taner Savut, stjórnarmanni félagsins. Atsu er særður, en enn á lífi. Savut er hins vegar enn ófundinn.

Mustafa Özat, varaforseti Hatayspor, staðfesti við Radyo Gol, að Atsu sé fundinn á lífi, en Savut sé enn saknað.

Atsu gekk ungur að árum til liðs við Chelsea og var lánaður til Everton tímabilið 2014-2015 og til Newcastle tímabilið 2016-2017. Hjálpaði hann Newcastle að komast upp í ensku úrvalsdeildina eftir eitt tímabil í B-deildinni og spilaði síðan með félaginu áfram til ársins 2021 þegar hann fór til Sádi-Arabíu, og þaðan til Tyrklands síðasta sumar. Atsu hefur leikið 65 landsleiki fyrir Gana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert