Fór í annan uppskurð á hné

Diego Jóhannesson í landsleik.
Diego Jóhannesson í landsleik. AFP/Karim Jaafar

Hálfíslenski knattspyrnumaðurinn Diego Jóhannesson sem hefur leikið allan sinn feril á Spáni er búinn að gangast undir aðra aðgerð á hné en hann hefur verið frá keppni síðan í mars 2022.

Diego fór þá í uppskurð vegna meiðsla í hné og spilaði ekki meira á síðasta ári. Hann var kominn inn í leikmannahóp liðs síns, Albacete, í spænsku B-deildinni rétt fyrir jól en síðan tóku meiðslin sig upp á ný.

Diego skýrði frá þessu á Twitter þar sem fram kemur að hann hefur átt við óþægindi að stríða í hnénu undanfarna mánuði.

Diego er 29 ára gamall, leikur sem hægri bakvörður, og lék þrjá A-landsleiki fyrir Íslands hönd á árunum 2016 og 2017. Hann lék með Real Oviedo í B- og C-deildunum á árunum 2014 til 2021 en fór þá til Albacete sem var í C-deildinni en vann sér B-deildarsæti síðasta vor.

mbl.is