Bandaríkjamaðurinn Pellegrino Matarazzo hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Hoffenheim. Hann tekur við liðinu af André Breitenreiter, sem var rekinn á mánudag í kjölfar 2:5-taps liðsins gegn Bochum í þýsku 1. deildinni.
Matarazzo þekkir vel til hjá Hoffenheim, því hann vann hjá félaginu frá júlí 2017 til desember 2019. Sá bandaríski þjálfaði m.a. U17 ára lið Hoffenheim, áður en hann tók við sem aðstoðarþjálfari aðalliðsins.
Matarazzo yfirgaf Hoffenheim til að taka við aðalliði Stuttgart, þar sem hann var knattspyrnustjóri í tæp þrjú ár frá desember 2019 til október 2022. Hann var rekinn frá Stuttgart í október á síðasta ári.
Hoffenheim er í 14. sæti þýsku 1. deildarinnar með 19 stig eftir 19 leiki. Liðið hefur ekki unnið deildarleik frá 3:0-útisigri á botnliði Schalke 14. október.