Sveinn skoraði í sigri á Blikum

Sveinn Aron Guðjohnsen í leik með íslenska landsliðinu í janúar …
Sveinn Aron Guðjohnsen í leik með íslenska landsliðinu í janúar síðastliðnum. Ljósmynd/Alex Nicodim

Knattspyrnumaðurinn Sveinn Aron Guðjohnsen var á skotskónum gegn sínum gömlu félögum í Breiðabliki þegar lið hans Elfsborg hafði betur, 2:1, í vináttuleik í Portúgal í dag.

Sveinn Aron kom Elfsborg í forystu eftir stundarfjórðungs leik með hnitmiðuðu skoti niður í hornið.

Staðan var 1:0 í hálfleik og eftir rúmlega klukkutíma leik átti hann stóran þátt í öðru marki sænska liðsins.

Sveinn Aron tók þá skot sem Anton Ari Einarsson í marki Breiðabliks varði til hliðar. Illu heilli fyrir Blika var Alexander Bernhardsson hins vegar mættur til að hirða frákastið og renndi boltanum í netið af stuttu færi.

Sex mínútum fyrir leikslok minnkaði Breiðablik muninn og þar var á ferð Ágúst Orri Þorsteinsson sem kom aftur til Blika frá Malmö í Svíþjóð í vetur.

Hjá Elfsborg lék Sveinn Aron allan leikinn í fremstu víglínu og Hákon Rafn Valdimarsson lék allan leikinn í marki liðsins.

mbl.is